Leiguskilmálar

Almennir leiguskilmálar Umbúðamiðlunar ehf.

Athugið að Umbúðamiðlun leigir eingöngu ker til notkunar á Íslandi, og í sérstökum tilvikum til útflutnings á afla til erlendra viðtakenda (sjá nánar neðar). Sé um útflutning að ræða skal leigjandi semja um það sérstaklega og fylgja í hvívetna reglum okkar þar um. Umsaminn útflutningur er eingöngu heimill til ákveðinna staða í Evrópu og skulu tóm ker flutt til baka um leið og þau hafa verið losuð í fyrsta sinn og þvegin.

Ströng skilyrði fylgja leyfi okkar til útflutnings, þar með talin heimild til að fá upplýsingar um magn, kerfjölda og annað sem máli skiptir frá flutningsaðilum.

Ekki er heimilt að flytja okkar ker áfram, frá landi sem við heimilum útflutning til, til lands sem við heimilum ekki útflutning til.

  1. LEIGU- OG AFGREIÐSLUGJALD OG UPPGJÖR
    Leigutaka ber að greiða leigugjald vegna fiskkera í eigu Umbúðamiðlunar ehf. og fer um fjárhæð þess samkvæmt gjaldskrá leigusala á hverjum tíma.
    Íslenskir fiskmarkaðir innheimta vikulega leigugjaldið af afla sem fer í sölumeðferð hjá þeim. Þar er um að ræða ákveðið gjald pr/kg.Umbúðamiðlun leigir líka út ker beint til viðskiptavina, ýmist gegn ákveðnu gjaldi pr/kg, ákveðnu gjaldi pr/sólarhring, eða samkvæmt öðrum skilgreiningum. Gjalddagi og eindagi slíkrar leigu er 20. dagur hvers mánaðar eftir leigumánuð vegna mánaðarreikninga. Dragist greiðsla fram yfir umsaminn gjalddaga ber leigutaka að greiða hæstu lögleyfða dráttarvexti af vanskilunum frá gjalddaga til greiðsludags.

  2. SKILGREINING Á LEIGU
    Almenna reglan vegna afla sem seldur er á íslenskum fiskmarkaði er að leiga hefst frá og með þeirri stundu að fiskur eða ís er settur í ker, og henni líkur þegar kerið hefur verið tæmt í fyrsta sinn að því loknu. Þannig er ekki heimilt að nota þau í áframhaldandi vinnslu, t.d. undir bein, roð eða annað, án samkomulags við Umbúðamiðlun.
    Sjá nánar PDF skjal, hér.


  3. NOTKUNARRÉTTUR LEIGUTAKA
    Hin leigðu ker má einungis nota undir flutning og geymslu á sjávarafurðum og ís. Leigutaka er með öllu óheimilt að nota ker í eigu Umbúðamiðlunar ehf. undir hvalaafurðir og/eða kjöt. Ennfremur er stranglega bannað að nota körin undir veiðarfæri, málma, úrgang eða annað, sem valdið getur skemmdum á körunum. Leigutaka er óheimilt að framselja ofangreindan afnotarétt til þriðja aðila, nema með samþykki leigusala.

    Óheimilt er með öllu að nota ker í eigu Umbúðamiðlunar ehf. til gámaútflutnings nema sérstaklega sé um það samið fyrirfram.


  4. ÁBYRGÐ LEIGUTAKA
    Leigutaka ber í hvívetna að sýna fyllstu aðgæslu við meðferð leigðra kera og ber hann fulla og ótakmarkaða ábyrgð á þeim meðan þau eru í hans vörslu. Til vörslu í þessu sambandi telst tímabilið frá því að kerin eru afhent leigutaka og þar til þeim hefur verið skilað.
    Ábyrgð leigutaka samkvæmt framangreindu nær til skemmda er verða kunna á kerunum eða ef ker eyðileggst, týnist eða því er stolið. Kerin skulu afhent leigutaka hrein, heil og í góðu ástandi. Leigutaki skal skila körum hreinum. Leigutaka ber að tilkynna leigusala um skemmdir sem verða kunna á kerum meðan þau eru í vörslu og á ábyrgð leigutaka. Leigutaka ber að greiða bætur fyrir skemmdir á kerum sem skemmdast kunna í vörslu leigutaka. Greitt skal fyrir viðgerðir samkvæmt reikningi leigusala. Eyðileggist eða týnist ker í vörslu leigutaka eða sé því stolið skal leigutaki bæta leigusala kerið, miðað við nývirði. Miðað skal við það verð sem er í gildi hjá framleiðendum fyrir sambærileg ker á þeim tíma sem uppgjör milli leigusala og leigutaka fer fram. Sömu aðferð skal beitt ef skemmdir á keri eru svo miklar að talið verður að viðgerð svari ekki kostnaði. Finnist ker sem talið hefur verið týnt, eftir að ofangreint uppgjör hefur farið fram milli leigusala og leigutaka, skal leigusali endurgreiða leigutaka það sem hann hefur greitt vegna tjónsins, að frádregnum öllum kostnaði leigusala vegna uppgjörsins og endurheimtunnar og viðgerðarkostnaði ef um slíkt er að ræða.


  5. AFHENDINGAR- OG SKILASTAÐUR

    Keraleiga hefst við afhendingu til leigutaka, eftir atvikum:
    1. við sérhver kaup á hráefni til vinnslu á fiskmarkaði eða þriðja aðila.
    2. hjá umboðsaðila Umbúðamiðlunar ehf, t.d. fiskmarkaði eða samstarfsaðila.
    3. í húsnæði leigusala í Reykjavík.
    4. það er komið í vörslu leigutaka eða flutningsaðila á hans vegum.
    5. samkvæmt ákvörðun leigusala hverju sinni.

    Hinum leigðu kerum skal skilað hreinum og tilbúnum í næstu leigu:
    1. á sama stað og þau voru afhent.
    2. á fiskmarkað í umdæmi leigutaka að fengnu samþykki leigusala í hvert sinn sem skilað er.
    3. til viðskiptavina leigusala þar sem þörf er á hverju sinni, að fengnu samþykki leigusala í hvert sinn sem skilað er.

    Annað við keraskil:
    * Allan kostnað vegna flutninga á kerjum greiðir leigutaki enda er flutningsaðila skylt að skila tómum kerjum á sama stað og ferð hófst samanber ofangreint.
    * Ef keri er skilað óhreinu skal leigutaki greiða fyrir þvott á kerinu, samkvæmt gjaldskrá Umbúðamiðlunar hverju sinni.
    * Ef keri er ekki skilað sama dag og leigu lýkur skal leigutaki greiða fyrir smölun á kerinu, samkvæmt gjaldskrá Umbúðamiðlunar hverju sinni.   Sjá nánar PDF skjal, hér.

  6. ÚTFLUTNINGUR AFLA
    Útflutningur á kerum Umbúðamiðlunar er stranglega bannaður, nema um hann sé samið sérstaklega. Í slíkum tilvikum er þó eingöngu heimilt að senda afla til eftirtalinna Evrópulanda:

    1. Bretland (Humber svæðið)
    2. Þýskaland
    3. Frakkland (Boulogne-sur-Mer)
    4. Holland
    5. Belgía
    6. Danmörk